Stöflunarstyrkur frauðkassa Tempru er um 500-860 kg

Stöflunarstyrkur allra helstu kassategunda Tempru hefur nú verið mældur í tilraunaaðstöðu Háskóla Íslands. Kössum var komið fyrir á sléttu, láréttu gólfi og þrýst ofan á lok þeirra með jöfnum þrýstingi. Stöflunarstyrkur reyndist að meðaltali vera milli um 5,0 til 8,5 kN, sem jafngildir um 500 til 860 kg þunga. 

Ef þessar niðurstöður eru bornar saman við þann meðalþunga, sem hvílir á neðstu frauðkössum á fulllestuðu vörubretti, þ.e. um 50 til 190 kg, fæst öryggisstuðull milli 4,2 og 9,9. Þetta þýðir að miðað við þessar bestu mögulegu aðstæður, þ.e. kyrrstæður brettastafli á láréttum fleti, þola frauðplastkassarnir 4,2-9,9 sinnum meiri þunga en þeir verða í raun fyrir. 

Allar hreyfingar (flutningur) og annað álag, sem kassarnir verða fyrir, hafa vitaskuld áhrif til lækkunar á þessum öruggisstuðlum. 

 

Frekar má fræðast um þessa rannsókn í þessari skýrslu eða með því að senda fyrirspurn á Björn Margeirsson rannsóknastjóra Sæplasts/Tempru og dósent við Háskóla Íslands (bjornm@hi.is).